
Fagkonur tóku þátt í Starfamessu í Kársnesskóla í Kópavogi á dögunum. Starfamessur eru viðburðir sem yfirleitt eru skipulagðir af náms- og starfsráðgjöfum. Fyrirtækjum og fólki úr fjölbreyttum starfsgreinum er boðið að taka þátt og kynna störf og/eða fyrirtæki fyrir nemendum á efsta stigi. Markmiðið er að nemendur fái að sjá hversu margar leiðir standa í raun til boða þegar kemur að því að velja sér framhaldsnám eftir grunnskóla.
Á starfamessum gefst nemendum kostur á að kynna sér ýmislegt gagnlegt um fjöldan allan af starfsgreinum sem þau jafnvel höfðu ekki hugmynd um að væru til. Þau eru hvött til að spyrja ákveðinna spurninga sem hjálpar þeim að átta sig betur á umfangi starfa og í hverju þau felast dags daglega. Félagi Fagkvenna hefur oft boðist að taka þátt í Starfamessum og við leggjum okkur fram við að senda fulltrúa þegar tækifæri gefst.
Að þessu sinni voru það tvær af okkar stjórnarkonum sem stóðu vaktina það voru þær Sara Brekkan, húsasmíðameistari, og Eyvör Stella, nemi í rafvirkjun. Þær kynntu iðnnámið fyrir nemendum, ásamt því að tala um þau fög sem þær þekkja best og starfa í, húsasmíði og rafvirkjun. Þær sýndu verkfæri og efni sem þær þurfa að nota í sinni vinnu og fræddu nemendur og fleiri um þann mikla ávinning sem það er að kunna til verka og að geta notað þekkingu sína til að skapa og búa til. Aðspurðar segja þær að vel hafi tekist til og þær sjálfar hafi haft gaman af því að spjalla við nemendur og aðra.