Tara stóð uppi sem sigurvegari

Tara, flugvirki, stóð uppi sem sigurvegari mótsins. Með henni er Sóley Rut sem afhenti Töru bikarinn fyrir hönd stjórnar félagsins.

Á árlegu keilumóti Félags Fagkvenna var góð stemmning og fagkonur léku á alls oddi. Boðið var upp á fordrykk áður en leikar hófust og var mætingin góð. Gleði og glens í bland við mikil tilþrif og einbeitingu einkenndu keppnina.

Eftir keiluna settist hópurinn niður saman og fagkonur gæddu sér á hlaðborði af pizzum og efldu tengslin hvor við aðra. Það er alltaf gaman að sjá ný andlit bætast í hópinn og sjá fleiri taka þátt í viðburðum á vegum félagsins. Mikilvægur liður í starfi félagsins er einmitt að skapa vettvang fyrir tengslamyndun, þvert á iðngreinar.

Þarna voru saman komnar fagkonur með sveinsbréf m.a. í flugvirkjun, vélvirkjun, rafvirkjun, rafeindavirkjun, rafveituvirkjun, húsasmíði, húsgagnasmíði, blikksmíði, prentiðn og með réttindi í vélstjórn. Ekki amaleg sérfræðiþekking í hópnum!

Tara S. Matthíasdóttir, flugvirki, bar sigur úr bítum og fékk afhentan farandbikar fyrir frammistöðu sína. Við óskum henni til hamingju með sigurinn og hlökkum til að sjá hvort hún haldi titlinum þegar næsta mót verður haldið….

Tilþrifin voru mikil á árlegu keilumóti Félags Fagkvenna