
Hvað er Félag Fagkvenna?
Félag fagkvenna er félag fyrir konur og kvár í iðnnámi, sem hafa lokið iðnnámi og sem eru með sveinsbréf í iðngrein sem telst til karllægrar greinar, t.d. byggingariðnaður, rafiðnaður og málmiðnaður.
Markmið og tilgangur Félags Fagkvenna er helst það að efla konur og kvár í iðngreinum og ekki síður hvetja til fjölgunar þeirra innan karllægra iðngreina. Það gerum við m.a. með því að auka sýnileika og með því að vera fyrirmyndir fyrir ungt fólk og ungmenni.
Félagið tekur þátt í ýmsum viðburðum, s.s. starfamessum, skólaheimsóknum og kynningum með þann tilgang að vekja athygli á konum og kvárum í iðngreinum.
Hver geta fengið aðild að félaginu?
Öll sem telja sig vera Fagkonu og hafa lokið sveinsprófi, eru á námssamning eða í námi í karllægri iðngrein geta verið með.

Hvað fæ ég út úr því að vera með?
Félagið er frábær vettvangur fyrir fagkonur og fagkvár sem hafa áhuga að kynnast öðrum fagkonum með sömu eða svipaða menntun og reynslu.
Félagið stendur fyrir nokkrum viðburðum á hverju ári fyrir Fagkonur sem skapar tækifæri til að efla tengslanetið og kynnast fleiri fagkonum. Óháð iðngrein.
Innan hópsins eru Fagkonur með mikla reynslu og þekkingu og því er hægt að fá svör við fyrirspurnum og vangaveltum á öruggum vettvangi.
Félagið er í góðu samstarfi við menntastofnanir sem tengjast iðnaði sem og verkalýðsfélög þeirra sem starfa í iðnaði. Við höfum góð tök á því að aðstoða og leiðbeina ef mál eða fyrirspurnir eru þess eðlis.

Hvers konar bakgrunn hafa fagkonur?
Félag Fagkvenna skartar fjölbreyttum hópi sem lokið hafa sveinsprófi, eru á námssamningi eða í námi í karllægum iðngreinum.
Fagkonur koma úr á þriðja tug iðngreina. Innan þess má t.d. finna rafvirkja, rafeindavirkja, húsa- og húsgagnasmiði, bifvélavirkja, bílamálara, pípara, múrara, málara, flugvirkja, vélstjóra og skrúðgarðyrkjufræðinga.
Kostar að taka þátt?
Félagsgjöld eru innheimt árlega og er upphæð þeirra 12.000 kr. Það var staðfest á síðasta aðalfundi félagsins, í apríl 2025.
Rafræn krafa er send á alla skráða félaga í kjölfar aðalfundar. Hægt er að greiða árgjaldið í einni greiðslu eða skipta í fleiri hluta.

Félag Fagkvenna eru óhagnaðardrifin félagasamtök. Fjármunir sem eru í eigu félagsins og stafa af greiðslu félagsgjalda eru nýttir til að standa straum af kostnaði við þátttöku félagsins í kynningum og viðburðum og til að standa undir kostnaði sem fellur til við að halda viðburði.