Stjórn Félags Fagkvenna 2025-2026
Formaður

Jóhanna Bárðardóttir
rafvirki og rafveituvirki í meistaranámi
Jóhanna hefur verið formaður Fagkvenna síðan síðla árs 2024. Hún skráði sig fyrst í félagið 2018 og hefur tekið virkan þátt í starfinu síðan.
Hún hefur starfað í stóriðju lengst af á starfsferlinum og sinnir kennslu í hjáverkum á rafvirkjabraut í FB. Hún starfar auk þess mikið með verkalýðsfélögum, þá sérstaklega innan RSÍ, FÍR og Fagfélaganna á Stórhöfða.
Hún útskrifaðist af rafvirkjabraut FB og lauk rafveituvirkjun til viðbótar frá Tækniskólanum.
Jóhanna brennur fyrir það að efla stöðu kvenna og kvára á karllægum vettvangi. Hún er sérstaklega áhugasöm um tölfræði og hefur yndi af því að rýna í tölur.
Vissir þú að fyrsta konan sem lauk sveinsprófi í rafvirkjun á Íslandi gerði það árið 1978?
Varaformaður

Sara Brekkan
húsasmíðameistari
Sara hefur verið í félaginu frá stofnun og er nú varaformaður félagsins. Hún hefur setið í stjórn félagsins með hléum frá stofnun. Einnig hefur hún tekið virkan þátt í skemmtinefnd félagsins.
Hún útskrifaðist frá Tækniskólanum í húsgagnasmíði en tók svo stefnu á húsasmíði þegar henni bauðst samningur sem húsasmiðanemi og lauk húsasmíði frá Tækniskólanum. Nú starfar hún í fullu starfi sem kennari við húsasmiðabraut FB.
Hún brennur fyrir að styðja við öll sem vilja stíga út fyrir þægindarammann og þora að gera það sem þau hafa áhuga á að gera.
Um leið og áhuginn er fyrir hendi kemur metnaðurinn!
Ritari

Margrét Halldóra Arnarsdóttir
rafvirkjameistari og nemi í múraraiðn
Margrét er ein af þeim sem kom á stofnfund félagsins og hefur verið partur af stjórn frá upphafi. Hún hefur verið formaður Fagkvenna, meðstjórnandi og er nú ritari.
Margrét starfar í orkugeiranum í dag og er rafvirkjameistari ásamt því að vera langt komin með nám í múraraiðn.
Margrét hefur tekið þátt í félagsmálum lengi og brennur mikið fyrir það að efla stöðu kvenna í karllægum greinum bæði þegar kemur að þátttöku þeirra og tengslaneti. Eitt helsta áhugamál Margrétar er að brasa í framkvæmdum og kynnast sem flestum sviðum iðnaðarins.
Þegar ein kona stendur upp, hækka allar raddir.
Gjaldkeri

Þeba Björt Karlsdóttir
rafvirkja- og símsmíðameistari
Þeba Björt er ein af stofnendum Fagkvenna og hefur verið gjaldkeri félagsins frá upphafi. Hún leggur áherslu á sýnileika kvenna í iðngreinum og að fræða börn og ungmenni um að öll geti orðið það sem þau vilja – óháð kyni eða bakgrunni.
Þeba er fjölhæf fagkona: hún er rafvirkja- og símsmíðameistari, raffræðingur, byggingastjóri og búfræðingur. Hún er jafnframt framkvæmdarstjóri og eigandi eigin fyrirtækis, þar sem hún sameinar reynslu, fagþekkingu og drifkraft til að skapa öflugt starfsumhverfi. Í frítíma sínum rekur hún hestabúgarð og nýtur þess að vinna með dýrunum og vera úti í náttúrunni. Þeba trúir á að láta verkin tala og lifir eftir mottóinu sínu:
„Ef þú gerir það ekki sjálf, þá gerir það enginn.“
Meðstjórnendur:

Sóley Rut Jóhannsdóttir
húsgagna- og húsasmíðameistari
Sóley Rut hefur verið meðlimur í félaginu frá Sumargleði Fagkvenna 5. maí 2017 og hefur tekið virkan þátt í félagsstarfinu síðan.
Hún er húsgagna- og húsasmíðameistari að mennt og starfar við hvorutveggja hjá Afltak ehf. Hún situr einnig í stjórn Byggiðnar (áður Trésmiðafélag Reykjavíkur) og er fyrsta konan til að sitja í stjórn félagsins.
Helsta áhugamál Sóleyjar eru smíðar og vill hún hvetja konur til að kynna sér iðnnám og gleðinni sem fylgir því að vinna með huga og höndum.
Það er valdeflandi að vera sjálfbjarga og öll verkkunnátta er ómetanleg. Stéttirnar vinna náið saman og tengslanetið sem fæst með því að vinna með öðrum er gulls í gildi.

Melkorka María Guðmundsdóttir
húsasmiður
Melkorka María hefur setið í stjórn Félags Fagkvenna frá árinu 2021. Hún situr einnig í fagráði bygginga- og mannvirkjagreina hjá Iðunni fræðslusetri.
Hún lauk sveinsprófi í húsasmíði frá Tækniskólanum og starfaði við iðnina um árabil áður en hún hóf störf við verkefnastjórnun framkvæmda. Samhliða því stundar hún nám í byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík.
Melkorka María brennur fyrir endurmenntun innan iðngreina og faglega þróun. Hún leggur áherslu á að konur og kvár séu meðvituð um þau fjölbreyttu tækifæri sem þeim standa til boða.
Þekking styrkir – samstaða skapar tækifæri

Eva Yggdrasil
húsgagna- og húsasmíðameistari
Eva Yggdrasil er ein af stofnendum Félags Fagkvenna og er í stjórn nú í annað sinn. Eva er aktavisti fyrst og fremst og berst fyrir jafnrétti þar sem hún er stödd.
Hún hefur starfað við nánast hvað sem er og er því tilvalið að hún starfi einmitt nú hjá Vinnueftirlitinu. Þar er hún sérfræðingur í öryggi og heilbrigði á vinnustöðum þar sem hún fær að nýta reynslu sína til að bæta og byggja vinnustaðamenningu í íslensku samfélagi og að sjálfsögðu með jafnréttissjónaukann á nefinu.
Hún er húsa -og húsgagnasmíði meistari, kennari og markþálfi og starfaði hjá innréttinga- og húsasmíða fyrirtæki hér áður og kenndi húsa- og húsgagnasmíði við Tækniskólann í Reykjavík. Eva á Franskan bolabít svo það er lítið pláss fyrir annað í lífi hennar.
Vissir þú að konur og kvár eru mun líklegri til að hætta í karllægu starfi vegna framkomu starfsfélaga sinna frekar en líkamlegrar getu?

Eyvör Stella Guðmundsdóttir
nemi í rafvirkjun
Eyvör hefur fylgst með starfi Fagkvenna frá unga aldri, þar sem mamma hennar hefur verið gjaldkeri félagsins frá upphafi. Hún fór fyrst með henni á aðalfund árið 2025 og fannst það svo spennandi að hún ákvað að gefa sjálf kost á sér í stjórn.
Hún vinnur sem rafvirki á daginn og stundar nám í kvöldskóla. Eyvör er búin með grunndeild rafvirkja og stefnir á að ljúka sveinsprófi á næstu misserum.
Með þátttöku sinni í Fagkonum vill hún hvetja fleiri konur og kvár til að fara í iðngreinar og sýna að þau eiga alveg jafn mikið heima í iðnstörfum og karlarnir.
Júlía Ingvarsdóttir – rafvirki